Breski blaðamaðurinn Rodney Jefferson, segir í grein sem birt er á vef Bloomberg í dag að sannri vináttu hafi ekki verið fórnað á milli Íslendinga og Breta, þar sem slík vinátta hafi ekki verið fyrir hendi að hálfu Breta, a.m.k. ekki í hafnarbænum Hull.
Jefferson segir samskipti ríkjanna ekki hafa verið forsíðufréttir frá þeim tíma er þorskastríðinu lauk en að samskipti ríkjanna séu nú verri en þau hafi nokkru sinni verið á þeim tíma. Þá minnir hann ítrekað á að í þeim átökum hafi Íslendingar farið með sigur úr býtum.
Greinin ber fyrirsögnina Íslenska kreppan færir breskum hafnarbæ réttlæti eftir þorskastríð áttunda áratugarins. Í henni er m.a. vitnað til viðtala Jefferson við sjómenn sem veiddu á Íslandsmiðum á síðustu öld.
Einn þeirra, Jim Williams, sem er nú áttræður og var á breskum togurum frá Hull um þrjátíu ára skeið, segist upplifa kreppuna á Íslandi sem „makaleg málagjöld”.
Williams hætti að sigla á Íslandamið árið 1973 er deilan náði hámarki. Tveimur árum síðar hrundi fiskiskipafloti Hull, sem fram að þeim tíma var sú höfn Evrópu þaðan sem flest skip gerðu út.
„Á einu ári breyttist allt. Fólk sem var á fimmtugs og sextugsaldri varð atvinnulaust. Það er auðvelt að ímynda sér biturleiakann," segir hann „Þetta var hræðilegt. Það var ekki bara sjávarútvegurinn sem hrundi heldur allt samfélagið.”
Williams minnist þess einnig í viðtalinu er íslensku varðskipin sigldu upp að bresku togurunum og klipptu á troll þeirra. „Þeim var ansi heitt í hamsi. Þetta var hættulegur leikur sem þeir léku,” segir hann um áhafnir íslensku varðskipanna.
Williams neitaði boði um að vera viðstaddur er minnisvarði um samvinnu Íslendinga og Breta í sjávarútvegi var afhjúpaður árið 2006.
Í greininni hefur Jefferson eftir Þresti Sigtryggssyni, 79 ára fyrrum varðskipsstjóra, að Íslendingar hafi einungis verið að gæta hagsmuna sinna en að hann geti þó vel ímyndað sér að að sjómönnum í Hull finnist einhvers konar réttlæti vera að koma fram. „Það voru mikil sárindi og reiði í garð Íslendinga á þeim tíma,” segir hann.
Helmingur St. Andrew's hafnarinnar í Hull gekk á sínum tíma undir nafninu Íslenski markaðurinn. Þegar mest var voru 150 togarar skráðir í Hull en nú eru þrír togarar skráðir þar.