Brátt lætur úr höfn á Akureyri rannsóknarskipið Neptune EA-41 og verður stefnan tekin á Eystrasaltið, þar sem skipið verður í þjónustu rússneskra gas- og olíufélaga næstu misserin. Skipið er eign fyrirtækisins Neptune ehf. á Akureyri og er fátítt eða jafnvel einsdæmi að íslenskt rannsóknarskip af þessari stærðargráðu sé í einkaeigu. Neptune ehf. hyggst ekki láta staðar numið, því fyrirtækið hefur keypt enn stærra skip, togarann Harðbak, og hyggst breyta honum í rannsóknarskip.
Að sögn Ágústs H. Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Neptune ehf., hófust breytingarnar á skipinu í mars síðastliðnum hjá Slippnum á Akureyri, og eru þær á lokastigi.
Skipið hét áður Helga Björg og var togari, sem gerður var út frá Skagaströnd. Það er 490 brúttólestir. Gerðar hafa verið geysimiklar breytingar á skipinu, til að það geti sinnt hinu nýja hlutverki sem rannsóknarskip. Vistarverum hefur verið fjölgað og skipið búið fjölbreyttum tækjakosti. Ágúst segir að ekki liggi fyrir á þessari stundu hver heildarkostnaður verður við breytingarnar, en hann skipti hundruðum milljóna króna.
Neptune mun á næstunni vinna að lagningu gasleiðslu á botni Eystrasalts. Rússnesk fyrirtæki hafi leigt skipið til þessa verkefnis. Um borð verða 12 erlendir vísindamenn, 2-3 eftirlitsmenn með verkinu og níu manna íslensk áhöfn. Skipstjóri verður Jóhannes Páll Sigurðsson.
Sem fyrr segir hefur verið komið fyrir miklum tækjabúnaði um borð í skipinu. Meðal annars verða um borð þrír róbótar, sem tengjast mismunandi hlutverkum við lagningu gasleiðslunnar.
Ágúst segir að skipið sé í íslenskri eigu og Rússarnir muni bara leigja það, en hafi ekki keypt í því hlut. Hins vegar liggi fyrir að þau fyrirtæki, sem tekið hafa skipið á leigu, séu mjög fjársterk. Að hans sögn er Magnús Þorsteinsson aðaleigandi Neptune ehf. en stefnt er að því að fleiri aðilar komi að félaginu.