Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sakaði Samfylkinguna um að hræra í blóði Sjálfstæðisflokksins í umræðum um bankahrunið á Alþingi í dag. Guðni sagði tilgangslaust að tala um Evrópusambandið og að fórna þremur seðlabankastjórum. Þetta væri fánýt umræða og ekki á dagskrá.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði í gær að til greina kæmi að ríkið ætti varanlegan hlut í bönkunum. Þar á hann ekki skoðanasystur í samráðherra sínum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem sagði að menn yrðu að muna hvernig bankakerfið hefði verið fyrir einkavæðinguna. Tími flokkskírteina mætti ekki renna upp að nýju og það yrði að slíta þann naflastreng sem þegar væri farinn að þroskast milli stjórnmála og hinna nýju banka.