Seðlabankinn stígi varlega til jarðar

Gylfi Magnússon, dósent í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

„Ég vara eindregið við því að vera lækka stýrivexti mjög mikið til viðbótar. Allavega ekki fyrr en það er komin ró á gjaldeyrismarkaðinn,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, spurður út í ákvörðun Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti í 12%.

„Gengisfall krónunnar er að öllu jöfnu mjög verðbólguhvetjandi. Seðlabankinn hefur metið þetta svo að óhætt væri að lækka vexti eitthvað án þess að það yki líkurnar á frekari gengisfalli og verðbólgu,“ segir Gylfi.

„Ef hann [Seðlabanki Íslands] beitti sér fyrir því að vextir yrðu mjög lágir og undir verðbólgustigi, þá gæti það orðið mjög hættulegt. Það gæti endað í mjög mikilli verðbólgu,“ segir Gylfi ennfremur

Seðlabankinn hljóti að hafa gengið eins langt og hann hafi treyst sér til. Nú sé nauðsynlegt að bíða og sjá hvernig gengið og verðbólgan, og í raun allt efnahagslífið, muni þróast á næstu dögum og vikum áður en næsta skref verði tekið. 

„Það versta sem gæti gerst núna væri að sparifjáreigendur færu að óttast að spariféð færi að brenna uppi í verðbólgunni. Það væri alveg hræðileg viðbót við annars mjög viðkvæmt ástand,“ segir Gylfi.

Það sem er mikilvægast nú, að mati Gylfa, er koma gjaldeyrisviðskiptum aftur á stað. Stofna eigi til nýrra banka úr þessum þremur gömlu, sem í raun sé búið að gera. Þeir verði að verði að endurreisa viðskiptasambönd í útlöndum. 

„Það er í raun og veru ekki hægt að halda almennum fyrirtækjarekstri gangandi og þjónustu hins opinbera nema að þessir bankar og greiðslumiðlunarkerfi, bæði innanlands og milli landa, sé starfhæft.“

Aðspurður segir Gylfi ljóst að það verði að skipta um áhöfn í seðlabankanum. „Það er í raun bara eitt svar við því. Það er betra seint en aldrei.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka