Björgvin G.:Skynsamleg ákvörðun

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. mbl.is/Frikki

„Ég fagna þessari ákvörðun seðlabankans mjög. Mér finnst hún mjög skynsamleg í ljósi aðstæðna,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, en Seðlabanki Íslands tilkynnti nú í morgun að hann hefði ákveðið að lækka stýrivextina í 12%.

„Það sem að skiptir mestu máli fyrir okkur núna er að lágmarka skaðann sem atvinnulífið verður fyrir af falli bankanna. Auðvitað eru áhrifin af því mikil, flókin og kannski illfyrirsjáanleg. Þess vegna skiptir miklu máli að grípa til svona aðgerða sem bæta stöðuna myndarlega. Þetta skiptir fyrirtækin í landinu gríðarlegu miklu máli. Og sem fyrsta skref í þessu vaxtalækkunarferli þá fagna ég þessari ákvörðun,“ segir Björgvin.

Hann vonar að vextir muni ganga hratt niður á næstu mánuðum. „En auðvitað verðum við að hafa í huga að við erum um leið að glíma við verðbólguskot sem kemur út af gengisfalli,“ segir hann og bætir við að það sé ljóst að það sé samdráttur á öðrum sviðum í þjóðfélaginu.

Björgvin segist hins vegar hafa trú á því að þessi aðgerð seðlabankans muni hafa jákvæð áhrif.

Hið besta mál að leita til Rússa eftir lánveitingu

Í gær voru gjaldeyrisskiptasamningar virkjaðir sem voru gerðir seðlabanka Danmerkur og Noregs, og nemur hvor ádráttur 200 milljónum evra. Alls er því um 400 milljónir evra að ræða, sem nemur um 60 milljörðum kr. Björgvin segir að þetta hafi verið mjög eðlileg aðgerð hjá seðlabankanum miðað við núverandi stöðu. 

„Það er verið að efla gjaldeyrisforðann í landinu og tryggja að viðskipti til og frá landinu gangi eðlilega fyrir sig, bæði hvað varðar innflutning á vörum og öðru slíku. Þannig að seðlabankinn er að bæta í sínar kistur, og það er mjög jákvætt. Í dag og á morgun ráðast úrslitin með Rússalánið þannig að það eru mörg ágæt og jákvæð teikn á lofti í þessari erfiðu stöðu,“ segir Björgvin.

Aðspurður segist Björgvin ekki hafa áhyggjur af því að leita til Rússa eftir lánveitingu. „Mér finnst þetta bara hið besta mál. Það eru engin undirmál eða skilyrði sem þarna eru sett. Þetta er bara þjóð sem býr yfir miklum gjaldeyrisforða að bjóðast til að aðstoða okkur. Það er engin munur á því að taka lán hjá þeim eða þjóðum sem við höfum kannski átt meiri samskipti við en rétt okkur ekki hjálparhönd. Þá er þetta bara hið besta mál,“ segir viðskiptaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert