Þjóðerniskennd efld á bensínafgreiðslustöðvum

Íslenski fáninn blakti í stað fyrirtækjafána í dag.
Íslenski fáninn blakti í stað fyrirtækjafána í dag.

Á bensínafgreiðslustöðvum N1 hefur íslenski fáninn verið dreginn að húni í stað hinna venjulegu fyrirtækjafána. Tilgangurinn með þessu uppátæki mun vera að stappa stálinu í þjóðina.

„Tilgangurinn er einfaldlega sá að sýna samstöðu í þeim erfiðleikum sem ganga yfir þjóðina þessa dagana.“, segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1. „Íslenski fáninn er sameiningartáknið og oft var þörf, en nú er nauðsyn.“

Þá hefur N1 aukið vægi íslenskra vara í útstillingum í verslunum sínum. „Það er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf fjari ekki út. Á tímum sem þessum ber okkur að styðja við bakið á íslenskum iðnaði og þjónustu eins og kostur er “.

Hermann hvetur fólk og önnur fyrirtæki til að fylgja fordæmi N1 og draga íslenska fánann að húni. „Það stappar stálinu í þjóðina að sjá íslenska fánann sem víðast.“

Í fánalögum kemur fram að fáninn skuli aldrei vera dreginn á stöng fyrir kl. 7 að morgni og sé að jafnaði ekki uppi lengur en til sólarlags.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert