Trommað til vellíðunar

Karl Ágúst er vanur að leiða trommuhringi.
Karl Ágúst er vanur að leiða trommuhringi. mbl.is/Kristinn

„Við Íslendingar þurfum að standa saman og fagna lífinu sem ein þjóð!" segir í tilkynningu frá hópi fólks sem ætlar að fá þjóðina til að fylgja sama takti og hittast og mynda svokallaðan trommuhring á Ingólfstorgi í Reykjavík á föstudaginn næstkomandi klukkan 17 og slá taktinn saman.

Það er viðburðafyrirtækið Practical sem stendur að skipulagningunni en allir sem koma að þessari samkomu gefa sína vinnu. „Við settumst niður og spurðum hvað við gætum gert til að létta stemmninguna í þjóðfélaginu," sagði Hjördís Ýr Johnson í samtali við mbl.is.

Hjördís segir að trommuhringir sem fyrirbæri sé eitthvað sem fólk þurfi að upplifa til að finna hinn mikla kraft og lækningarmátt sem slíkar samkomur hafi.

Það er Karl Ágúst Úlfsson sem leiðir trommuhringinn á Ingólfstorgi á föstudaginn en hann er að sögn Hjördísar sprenglærður í þeim fræðum og hefur notað þá við kennslu í hópefli.

Hjördís hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta með sína trommu, hrísgrjónahristu, pott, plastfötu, sleif, pönnu, baunahristu eða allt hvað sem gefur frá sér góðan takt.

Hjördís vill taka það fram að þessi samkoma er ekki pólitísk að neinu leiti og að tilgangur hennar sé að þjappa þjóðinni saman og efla.

Sjá nánar á heimasíðu Practical og skýringar myndskeið á You Tube


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert