Verðlagsnefnd búvara hefur tekið sameiginlega ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, hækki 1. nóvember um 10,39%. Má gera ráð fyrir því að einn lítri af nýmjólk hækki um 10 krónur vegna þessara breytinga, sem sagðar eru vera vegna hækkana á aðföngum í mjólkuriðnaði og búvöruframleiðslu.
Afurðastöðvaverð til bænda hækkar um 7,13 krónur á lítra og vinnslu og dreifingarkostnaður hækkar um 5,90 krónur á hvern lítra.
Fram kemur á vef Landssambands kúabænda í dag, að sala á mjólkurvörum hafi gengið mjög vel að undanförnu. Sala ferskvöru hafi verið 8,3% meiri í september 2008 en í sama mánuði í fyrra. Í ostum og viðbiti var aukningin enn meiri og sala þessara vara jókst um 11,2% miðað við september 2007.