„Heimilisbókhaldið ekki beysið"

Gift fjárfestingarfélag var stofnað utan um skuldbindingar Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga.
Gift fjárfestingarfélag var stofnað utan um skuldbindingar Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga. Árni Sæberg

„Ég geri ekki ráð fyrir að heimilisbókhaldið, ef þannig má að orði komast, sé beysið," sagði Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður í dag um stöðu Giftar fjárfestingarfélags sem stofnað var utan um skuldbindingar Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga í fyrra. Stjórn Giftar fundar í dag, eða á morgun, með fulltrúum í skilanefnd um stöðu félagsins sem versnað hefur mikið við hrun íslensku bankanna og fjárfestingafélaga.

Vill ekki tjá sig  

Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga, vildi ekki tjá sig um stöðu félagsins þegar mbl.is ræddi við hann fyrr í dag. Ekki hefur enn verið tekin endanleg ákvörðun um hvenær félaginu verður slitið eða hversu mikið kemur í hlut hvers og eins rétthafa eigna Giftar. Í fyrstu var stefnt á að gera það á haustmánuðum í fyrra en það hefur dregist af ýmsum ástæðum, að sögn Kristins.

Kristinn er formaður skilanefndar sem hefur það hlutverk að slíta Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga og greiða fyrrverandi tryggingartökum hjá félaginu út fjármuni félagsins. Þeir eru um 50 þúsund, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Nokkuð hefur verið deilt um starfsemi Giftar þar sem aldrei hefur verið haldinn hluthafafundur í félaginu. Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefur meðal annars haldið því fram í blaðagreinum í Morgunblaðinu að starfsemi félagsins sé ólögleg þar sem stjórnmenn í Gift hafi ekki umboð til þess að sitja í stjórn frá eigendum félagsins.

Mikil umsvif  

Þegar tekin var ákvörðun um að slíta félaginu, í júní í fyrra, var eigið fé félagsins um 30 milljarðar króna.

Hinn 11. desember í fyrra keypti Gift 3,1 prósent hlut Gnúps fjárfestingafélags í Kaupþingi og varð um leið fimmti stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Viðskiptagengi þeirra viðskipta var 867 og andvirði viðskiptanna um 20 milljarðar. Gift hefur minnkað hlut sinn í Kaupþingi en átti um 2,5 prósent í bankanum þegar hann fór í þrot, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. Þá átti Gift einnig hlut í fjárfestingafélaginu Exista en verðmæti þess félags hefur hrunið í niðursveiflu undanfarinna mánaða og er framtíð þess í nokkurri óvissu.

Vegna verðfalls á eignum Giftar hefur hlutur fyrrverandi tryggingartaka hjá Samvinnutryggingum, sem fá fjármuni Giftar til sín þegar slitin eru um garð gengin, minnkað mikið. Ekki er þó hægt að segja nákvæmlega til um hversu mikið eign Giftar hefur minnkað frá því um mitt ár í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka