Á sér ekki hliðstæðu hérlendis

Þrír menn voru snemma í morgun handteknir vegna gruns um aðild að umfangsmikilli framleiðslu fíkniefna. Húsleitir voru gerðar á tveimur stöðum í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði þar sem framleiðslan var talin fara fram. Lagt var hald á háþróaðan tækjabúnað sem nota má til fíkniefnaframleiðslu, efni á framleiðslustigi, auk þess sem lagt var hald á 1 kg af hassi og efni sem talið er vera fullunnið amfetamín eða metamfetamín.

Frá þessu greindu Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn fíkniefnadeildar, á blaðamannafundi sem lauk fyrir skemmstu. „Þetta á sér enga hliðstæðu á Íslandi,“ sagði Stefán.

Tveir lögreglumenn frá Europol eru staðsettir hér á landi en þeir eru sérfræðingar í að taka niður fíkniefnaverksmiðjur af þessu tagi. Samstarf hefur verið við Europol síðan rannsókn málsins hófst fyrir nokkrum mánuðum. Að þeirra sögn var framleiðslugeta verksmiðjunnar afar mikil. „Til marks um umfangið má geta þess að hinir handteknu fluttu nýverið inn eitt tonn af efni sem nota má til íblöndunar fíkniefna,“ sagði Stefán en um var að ræða mjólkursykur.

Ekki talið að framleiðslan hafi verið lengi í gangi áður en lögreglan lét til skarar skríða. Framleiðslu af þessu tagi fylgir gríðarlega mikil sprengi- og eldhætta og voru því fyrrnefndir sérfræðingar Europol fengnir til landsins auk þess sem lögreglan var í samstarfi við slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðið í næsta nágrenni verksmiðjunnar verður mannlaust næstu daga en það er talið nauðsynlegt meðan sprengihætta er talin vera fyrir hendi. Talið er að það taki sérfræðingana 2-3 daga að fjárlægja efnin og tækin úr húsinu. Að samstarfinu komu að auki tollgæslan og sérsveit ríkislögreglustjóra. Á fjórða tug lögreglumanna komu að aðgerðunum. Hinir handteknu eru allir íslenskir ríkisborgarar og hafa komið við sögu lögreglunnar áður, m.a. vegna fíkniefnamála.

Að sögn Stefáns sýnir þetta stóra mál getu og hæfileika íslensku lögreglunnar til að ná árangri sem er samanburðarhæfur við það sem best gerist í löndunum í kringum okkur auk þess sem það ber vott um mikilvægi náins samstarfs ólíkra stofnana. „Samstarfið hefur verið óaðfinnanlegt við alla,“ sagði Stefán.

Þeir þrír sem voru handteknir voru ekki handteknir í iðnaðarhúsnæðinu þar sem verksmiðjan er staðsett. Húsnæðið er leiguhúsnæði og um 200 fm að stærð. Ekki er talið tímabært að greina frá því hvort fleiri tengist málinu. Verið er að færa tvo hinna handteknu fyrir dómara.

Rannsóknin hófst, eins og fyrr segir, fyrir nokkrum mánuðum og var henni gefið nafnið „Operation Einstein“ vegna alþjóðasamstarfsins og þannig er rannsóknin þekkt hjá Europol. „Hvort það sé tilvísun í þá sem þarna stóðu að verki veit ég ekki,“ sagði Karl Steinar.

Tekið skal fram, að BG þjónustan, sem er með lageraðstöðu við hlið iðnaðarhúsnæðisins þar sem fíkniefnaframleiðslan fór fram, tengist fíkniefnamálinu ekki með neinum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert