Mikill meirihluti, eða 88% svarenda í rannsókn á viðhorfum til lögreglunnar og reynslu almennings af afbrotum, telja að lögreglan sé að vinna nokkuð eða mjög gott starf. Um 74% svarenda sem tilkynnt höfðu afbrot voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu lögreglunnar.
Um 32% svarenda sáu lögreglumann eða lögreglubíl í sínu byggðarlagi oft eða nær daglega. Markmið löggæsluáætlunar var að fjölga þeim sem telja sig örugga í miðborg Reykjavíkur að næturlagi um helgar. Það eru hins vegar færri nú, eða um 32% sem telja sig frekar eða mjög örugga í miðborginni samanborið við 36% árið 2004.
„Með löggæsluáætlun 2007-2011 var ríkislögreglustjóra m.a. falið að gera árlega þolendakönnun, þ.e. rannsókn á viðhorfum til lögreglunnar og reynslu almennings af afbrotum. Í könnuninni er m.a. spurt um öryggistilfinningu almennings í heimabyggð og í miðborg Reykjavíkur, um þjónustu lögreglunnar og sýnileika hennar. Könnunin miðast við allt landið og er hægt að greina stöðuna á milli landshluta en ekki milli lögregluumdæma," að því er segir í tilkynningu.