„Engar ákvarðanir um hvenær slitin á félaginu ganga í gegn liggja fyrir eftir fundinn í gær. Við erum að vinna að því að skoða stöðu félagsins en meira er ekki hægt að segja um málið að svo stöddu,“ sagði Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags samvinnutrygginga, fyrr í dag aðspurður um hvort fyrir lægi hvenær félaginu verði slitið. Í fyrstu var stefnt að því á haustmánuðum í fyrra en það hefur dregist af ýmsum ástæðum, að sögn Kristins Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns og formanns skilanefndar eignarhaldsfélagsins.
Stjórn Giftar fjárfestingafélags, sem stofnað var utan um skuldbindingar Samvinnutrygginga í júní í fyrra, fundaði í gærkvöldi með fulltrúum í skilanefnd félagsins sem vinnur að því að slíta félaginu og borga út fjármuni félagsins. Tryggingartakar, einstaklingar og fyrirtæki, hjá Samvinnutryggingum á árunum 1987 og 1988 eiga rétt á greiðslu vegna slita á félaginu. Þeir eru um 50 þúsund talsins.
Um mitt ár í fyrra átti Gift eignir umfram skuldir upp á 30 milljarða króna en sú staða hefur versnað mikið vegna verðfalls á hlutabréfamörkuðum undanfarið ár. Stærsta eign Giftar var í Kaupþingi en félagið átti rúmlega 2,5 prósenta hlut í bankanum þegar hann fór í þrot.
Í desember í fyrra keypti Gift ríflega þriggja prósenta hlut í Kaupþingi af fjárfestingafélaginu Gnúpi fyrir um 20 milljarða. Hlutur félagsins hefur minnkað niður í 2,5 prósent og átti Gift þann hluta í bankanum þegar skilanefnd Fjármálaeftirlitsins tók bankann yfir.
Að sögn Benedikts liggur ekki fyrir hversu mikið kemur í hlut hvers og eins. Ljóst er að sú hlutur hefur rýrnað verulega vegna verðfalls á eignum félagsins á undanförnum mánuðum.