Umkvörtun Íslendinga í garð annars aðildarríkis á vettvangi NATO á sér ekki hliðstæður síðan í þorskastríðunum við Breta. Síðast var það þegar barist var fyrir útfærslu landhelginnar í 200 mílur, í þriðja og síðasta þorskastríðinu sem stóð frá 1975 til 1976, að sögn Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.
Guðni segir að NATO hafi verið sá vettvangur sem Íslendingar töldu líklegastan til að afla málstað þjóðarinnar samúðar. „Í þorskastríðunum gerðist það reglulega að Íslendingar kvörtuðu yfir framferði Breta á Íslandsmiðum. Það gerðist með því að fastafulltrúi Íslands bar fram formlega kvörtun eða þá að kvörtun var komið á framfæri með viðræðum. Bent var á að framferði Breta hefði afskapega slæmar afleiðingar fyrir bandalagið og að Íslendingar myndu snúa baki við því ef Bretar gæfu ekki eftir,“ segir hann.
Þegar Guðni er spurður hvort það sé einnig vænleg leið nú að kvarta undan Bretum á vettvangi NATO segir hann: „Þá skiptum við máli á alþjóðavettvangi - en nú höfum við ekki það hernaðarlega mikilvægi sem kom okkur til góða í þorskastríðunum. Núna skiptum við ekki máli. En það er sjálfsagt að láta í ljós óánægju okkar og reiði. Hvort það breytir einhverju, er erfitt að segja til um.“