Ísland glatar gríðarlegum verðmætum á degi hverjum meðan hryðjuverkalögin í Bretlandi eru í gildi gegn Landsbankanum, segir Guðmundur Guðmundsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans.
Reynt sé að sinna bráðasta vandanum í innflutningi á mat og lyfjum og útflutningi á fiski í samstarfi við Seðlabankann. Það gangi þó mjög erfiðlega. Samstarfsbankar Landsbankans víða um Evrópu hafa vegna áhrifa frá bresku lögunum einnig fryst fé frá Íslandi meðal annars frá viðskiptavinum Landsbankans sem grandalausir reyndu að millifæra fé milli Landsbankans á Íslandi og erlendra banka áður en bankinn fór undir Fjármálaeftirlitið.
Öll viðskipti Íslendinga erlendis eru undir áhrifum vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Guðmundur segir að fjármálastofnunum í Bretlandi sé uppálagt að taka ekki einu sinni símann frá Íslendingum. Ástandið sé orðið mjög alvarlegt fyrir Ísland ef ekki verði breyting á eftir helgina.