Fá hringingar alls staðar að úr heiminum

Töluvert er um að bílaumboð og bílasölur hér á landi fái fyrirspurnir erlendis frá þessa dagana vegna áhuga á kaupum á ökutækjum og vinnuvélum. Vegna þess hve krónan er veik gagnvart erlendum gjaldmiðlum er nú hagstætt að kaupa ökutæki hér á landi. Hagsýnir kaupendur út í heimi virðast ekki vera að láta þetta tækifæri framhjá sér fara.

„Við erum að fá fyrirspurnir alls staðar að. Frá Rússlandi, Eistlandi, Noregi, Danmörku og víðar,“ segir Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar. Hann segir niðursveiflu hafa gætt á bílamarkaði hér á landi í langan tíma. Frá því í mars hafi hægt verulega á sölu og innflutningi samhliða veikingu krónunnar. „Síðustu vikur hefur borið svolítið á því að útlendingar komi hingað með íslenska peninga sem þeir hafa keypt í erlendum fjármálastofnunum og kaupa bíla,“ segir Egill.

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að kaupendur komi á bílasölur, og í umboð fyrir ýmis ökutæki, og staðgreiði bíla. „Á meðan staða gjaldmiðilsins er eins og hún er núna þá finnst mér líklegt að sala ökutækja úr landi aukist frekar ef eitthvað er,“ segir Egill.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert