Boða á til alþingiskosninga um leið og tekist hefur að róa ástandið, sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í umræðum á Alþingi í gær. Þjóðin þyrfti að velja sér nýja fulltrúa til að hægt væri að endurreisa trúnaðartraust í samfélaginu.
„Það sem er mikilvægast er að mínu mati að forðast tvennt, forðast atvinnuleysi og forðast landflótta. Við megum ekki missa mannauðinn úr landi sem nú er að tapa störfum í fjármálageiranum og annars staðar í atvinnulífinu,“ sagði Steingrímur og óskaði hugmyndum um að hjóla framhjá lögum og rétti um íslenska náttúru út í hafsauga.
Steingrímur sagði framkomu breskra stjórnvalda hafa verið hneykslanlega og óboðlega í samskiptum siðaðra þjóða. „Það er algerlega fáheyrt og megi skömm þess stjórnmálamanns vera lengi uppi sem þannig hegðar sér,“ sagði Steingrímur en áréttaði að Ísland ætti líka að líta í eigin barm. „Hvernig gat heilt samfélag orðið svona meðvirkt að einungis örfáar raddir reyndu að vara við, að benda á það sem var að gerast? Fjölmiðlar, fræðasamfélag og stærstur hluti stjórnmálanna í algjörum faðmlögum við viðskiptalífið og fjármálamennina sem réðu förinni með þjóðhöfðingjann sjálfan í fararbroddi.“
Steingrímur lagði jafnframt áherslu á að margir bæru pólitíska, lagalega, viðskiptalega og siðferðislega ábyrgð og hvatti hann auðmenn, sem verðmæti ættu erlendis, að koma heim og aðstoða við að byggja þjóðfélagið upp. „Geri þeir það ekki ættu þeir ekki að láta sjá sig mikið hérna á götunum,“ sagði Steingrímur.