Íslenska ríkið var í Hæstarétti í dag dæmt til að greiða karlmanni frá Litháen þrjú hundruð þúsund krónur í miskabætur en kröfu hans um bætur fyrir missi atvinnutekna var vísað frá. Maðurinn höfðaði skaðabótamál á hendur ríkinu vegna þess að honum hafði verið vísað úr landi og tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi hans afturkallað.
Hæstiréttur ógilti á sínum tíma úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem staðfest var niðurstaða útlendingaeftirlitsins um að afturkalla tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi mannsins og vísa honum úr landi.
Talið var að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð stjórnvalda að bakað hefði íslenska ríkinu bótaskyldu vegna þess tjóns sem maðurinn kynni að hafa orðið fyrir vegna umræddrar brottvísunar, en vafa um það hvort fullnægjandi rannsókn í málinu hefði leitt til annarrar niðurstöðu um brottvísun yrði að túlka honum í hag.
Maðurinn, sem er litháískur ríkisborgari, mun hafa fengið tímabundið dvalarleyfi hér á landi frá 15. mars 2000 til 1. febrúar 2001, sem síðan mun hafa verið framlengt til 1. febrúar 2002. Hann vann frá 13. september 2000 hjá fyrirtæki í Reykjavík á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings.
Í byrjun maí 2001 bárust lögreglunni í Reykjavík spurnir af því að hann hafi gerst sekur um alvarlegt brot í heimalandi sínu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hann hafi á árinu 1995 gerst sekur um manndráp og kynferðisbrot. Hann hafi með dómi héraðsdóms þar í landi í júní 1997 verið talinn ósakhæfur og vistaður á geðsjúkrahúsi, en þaðan hafi hann verið útskrifaður á árinu 1999.
Máli mannsins var beint til útlendingaeftirlitsins í október 2001. Það aflaði frekari gagna að utan og kom þar meðal annars fram að áfrýjandi hafi verið haldinn svonefndum ofsóknarkenndum geðklofa. Með ákvörðun útlendingaeftirlits 26. nóvember 2001 var framangreint dvalarleyfi mannsins afturkallað og honum vísað úr landi. Hann kærði þessa ákvörðun til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. desember 2001, en ráðuneytið staðfesti hina kærðu ákvörðun með úrskurði 8. febrúar 2002.
Í ákvörðuninni fólst einnig að áfrýjanda var bannað að koma aftur til landsins fyrir fullt og allt og gilti það bann einnig annars staðar á Norðurlöndunum. Bannið var skráð í Schengen-upplýsingakerfið þannig að maðurinn var óæskilegur í Schengen ríkjunum í 3 ár frá skráningunni. Í framhaldi af þessu yfirgaf maðurinn landið 2. mars sama ár. Hann höfðaði mál til ógildingar á framangreindum úrskurði ráðuneytisins 9. október 2002. Lauk því með dómi Hæstaréttar 18. júní 2004 sem ógilti úrskurðinn.
Niðurstaða Hæstaréttar í því máli var á því reist að stjórnvöld þau er í hlut áttu hefðu látið hjá líða að rannsaka svo sem kostur var öll atriði sem þýðingu höfðu við úrlausn málsins. Var litið svo á að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð útlendingaeftirlits og síðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að bakað hafi ríkinu bótaskyldu vegna þess tjóns, sem maðurinn kann að hafa beðið vegna umræddrar brottvísunar. Vafa um það hvort fullnægjandi rannsókn á málinu hefði leitt til annarrar niðurstöðu um brottvísun verður að túlka honum í hag, en engin ný gögn þar að lútandi hafa verið lögð fram í málinu.