Steingrímur Ari forstjóri sjúkratryggingastofnunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur skipað Steingrím Ara Arason, forstjóra sjúkratryggingastofnunar til næstu fimm ára. Hann tekur við embættinu 1. nóvember nk.

Steingrímur Ari Arason hefur verið framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá árinu 1999, en hann er MA í hagfræði frá háskólanum í Uppsala.

Steingrímur Ari Arason hefur víðtæka reynslu innan stjórnsýslunnar, hann hefur mikla reynslu á sviði samningamála og hefur um skeið verið formaður samninganefndar heilbrigðisráðherra.

Steingrímur Ari Arason var einn þriggja einstaklinga sem stjórn sjúkratrygginastofnunar gerði tillögu um að skipaður yrði forstjóri stofnunarinnar, að því er segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Þrjátíu og þrír sóttu um starf forstjóra sjúkratryggingastofnunar. Sex tóku umsóknir sínar aftur. Sautján karlar og tíu konur sóttust eftir starfinu.

Forstjórastaðan var auglýst laus til umsóknar í vor og sumar. Heilbrigðisráðherra skipar forstjóra sjúkratryggingastofnunar til fimm ára samkvæmt lögunum um sjúkratryggingar. Þetta gerir ráðherra að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert