Kostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna lóðaskila nemur 2,5 milljörðum króna. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir ljóst að erfiður tími bíði sveitarfélaga í landinu.
Heildarfjöldi lóða liggur ekki fyrir nákvæmlega samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ.
Fulltrúar sveitarfélaga funda nú á Grand Hótel um þá miklu erfiðleika sem blasa við í íslensku efnahagslífi og áhrifin sem þeir hafa á rekstur sveitarfélaga. Eins og greint var frá á mbl.is nemur kostnaður Kópavogsbæjar vegna innskila á lóðum fjórum til fimm milljörðum króna. Ekki er enn ljóst hversu mikill kostnaðurinn er fyrir Reykjavíkurborg en hann er nokkru minni en hjá Hafnarfjarðarbæ og Kópavogsbæ. Þar hefur vöxturinn verið mestur á undanförnum árum. Samkvæmt heimildum mbl.is er talið að kostnaður sveitarfélaga vegna innskila á lóðum á höfuðborgarsvæðinu öllu sé milli níu og tíu milljarðar.
Lúðvík segir rekstrarstöðu sveitarfélaga hafa gjörbreyst. „Það reiknaði enginn með þessari stöðu sem upp er komin. Hafnarfjarðarbær er í svipaðri stöðu og önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það það blasir við að tekjur eru að minnka mikið vegna þessa höggs sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir.“
Lúðvík segir einnig mikilvægt að bregðast fljótt við stöðunni sem upp er komin. „Til framtíðar þarf að huga að því hvernig tekjuflæðið á að vera hjá sveitarfélögunum því það er fyrirsjáanlegt að brestir komi í tekjustofna sveitarfélaga eins og mál standa nú.“