Auðvitað vonbrigði

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra Ómar Óskarsson

„Það er auðvitað ljóst að þegar maður fer í kosningabaráttu þá hlýtur maður að leggja upp með hugarfari sigurvegarans. Þannig að þegar maður nær ekki þeim árangri sem að er stefnt þá eru það auðvitað vonbrigði,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

„En það var við ramman reip að draga. Í fyrsta lagi voru þetta mjög öflugir keppinautar með gríðarlega sterka og þróaða utanríkisþjónustu og ítök mjög víða. Í öðru lagi kemur atkvæðagreiðslan á tíma þegar við eigum í miklum efnahagslegum erfiðleikum. Og þó við höfum borið okkur vel hér þá held ég að það sé líklegt að það hafi haft áhrif á þá sem voru að greiða atkvæði að við vorum í raun í allt annarri stöðu heldur en Tyrkir og Austurríkismenn hvað þetta varðar. Í þriðja lagi held ég að aðgerðir breskra stjórnvalda í okkar garð hafi verið okkur mjög erfiðar og sett okkur í neikvætt ljós,“ segir Ingibjörg Sólrún.

„Hinsvegar megum við ekki gleyma að þetta hefur verið mjög mikilvægt og lærdómsríkt ferli. Utanríkisþjónustan hefur átt sameiginlegt erindi að reka á alþjóðavettvangi. Við höfum eignast mikið af góðum vinaþjóðum og erum komin með umsvifamikið tengslanet sem við áttum ekki áður. Þannig að við erum búin að leggja mikið inn, eigum þarna mjög mikla innistæðu sem við eigum eftir að taka út,“ segir Ingibjörg Sólrún.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka