Bændur læra af bankakreppu

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands segir ljóst að hægt sé að reisa þær skorður sem sem þjóðin telji sig þurfa til að vernda innlenda hagsmuni í matvælafrumvarpinu án þess að gengið sé í berhögg við EES samninginn. Frumvarpið felur meðal annars í sér að leyfður verður innflutningur á hráu kjöti til landsins.  Margir hafa spáð því að það kippi fótunum undan svína og alifuglarækt i hér heima og jafnvel fleiri greinum.

Haraldur segir að Bændasamtökin hafi gert fjölmargar athugasemdir við frumvarpið og hann vilji bíða eftir því hvaða tillit sé tekið til þeirra í endanlegri útgáfu frumvarpsins áður en hann taki afstöðu með eða á móti frumvarpinu.

Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðust í gær óttast matvælaöryggi Íslands ef frumvarpið yrði samþykkt. Haraldur segir að það megi horfa til nýafstaðinna atburða í fjármálalífinu sem hafi leitt í ljós að menn geti ekki borið fyrir sig alþjóðlega samninga til að afsaka það sem miður fór. Þjóðir geti ævinlega sett skilyrði til að vernda innlenda hagsmuni, til að mynda í þessu tilfelli og þá til verndar heilsu manna og dýra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert