Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir eðlilegt að farið verði vel yfir starfsemi bankanna svo hægt sé að draga lærdóm af því sem fór úrskeiðis.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra upplýsti á Alþingi í fyrradag að ríkissaksóknari myndi gera skýrslu um starfsemi bankanna þar sem aflað yrði staðreynda um starfsemi Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, útibúa og fyrirtækja í þeirra eigu og tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið með skýrslunni er að kanna hvort einhver refsiverð háttsemi hafi átt sér stað sem gefi tilefni til lögreglurannsóknar.