Bretar vorkenna Íslendingum

MIKE SEGAR

John Sawers, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, segist vorkenna Íslendingum eftir að ljóst var að draumur Íslands um að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna varð að engu. Segir hann Íslendinga hafa gengið í gegnum erfiða tíma undanfarið „og okkur þykir leitt að að þeir geti ekki verið með okkur en það voru bara tvö laus sæti," sagði Sawers í samtali við Bloomberg fréttastofuna í dag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tók á móti fulltrúum ríkjanna 192 sem tóku þátt í kosningunni í dag í höfuðstöðvum SÞ í New York. Hún sagði eftir kosninguna að fjármálakreppan hefði ekki haft áhrif á úrslitin og að íslenskt efnahagslíf, sem væri óbugandi, myndi fljótlega ná sér upp úr öldurótinu, samkvæmt frétt Bloomberg.

Alejandro Wolff, aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ sagði við fréttamenn í dag að hann væri þokkalega sáttur við úrslitin í dag og að hann væri sérstaklega ánægður með kjör Tyrklands, en eins og fram hefur komið á mbl.is fengu Tyrkir flest atkvæði þegar kosið var um tvö ríki Vestur-Evrópu og Austurríki hafnaði í öðru sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert