Sérfræðingar frá lögreglunni og Europol hafa verið við vinnu í dag við að taka niður verksmiðjuna og tæki þar. Vinnan hefur gengið vel fyrir sig og sprengihætta ekki lengur talin fyrir hendi. Ekki er hægt að útiloka að efni sem framleidd hafi verið í amfetamínsverksmiðjunni hafi verið komið á markaðinn.
Frá þessu var greint á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir stundu.
Margar húsleitir voru framkvæmdar í gær og við þar kom í ljós ummerki um talsverða kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði, en þar voru engar plöntur lengur þegar lögreglan var þar í gær.
Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn leggur áherslu á að það sé ekki magnið af efnum sem fannst á vettvangi sem skiptir máli heldur framleiðslugeta þeirra sem að þessu stóðu.
Fjórði maðurinn var handtekinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hann var að koma til landsins með flugi.
Sérfræðingur á vegum Europol, Andre van Rijn, sem verið hefur ráðgefandi við þessa rannsókn og unnið við að taka niður tækin í Hafnafirði, segir verksmiðjuna bera þess merki að þar hafi kunnugir menn verið að verki sem hafi mikla þekkingu á framleiðslu amfetamíns. Búnaðurinn hafi verið óvenjuflókinn og vandaður og framleiðslugetan mikil. Því telur hann víst að framleiðslan hafi ekki verið ætluð eingöngu fyrir íslenskan markað, sem sé einfaldlega of lítill fyrir slíkt magn, heldur hafi efnið verið ætlað til útflutnings.
Rijn sagði verksmiðjuna með þeim flóknari og tæknilegri sem hann hefði séð á löngum ferli. Aðspurður um stærðargráðu framleiðslunnar sagðist hann myndu flokka hana á bilinu 8-9 á skalanum 1-10.