Sigrundur Sigurgeirsson, ráðgjafi Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, sat fyrir hönd ráðuneytisins fund í júlí í sumar, sem Landsbankinn boðaði til, en þar var kynnt skýrsla bresku hagfræðinganna Willems H. Buiters og Anne C. Sibert um íslenska bankakerfið.
Buiter, sem er prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir í bloggi sínu 9. október sl. að íslenskir viðmælendur hafi talið efni skýrslunnar of viðkvæmt fyrir markaðinn. Fundinn hafi sótt fulltrúar frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, einkageiranum og háskólasamfélaginu.
Sigmundur segist hafa fengið boð frá Landsbankanum um fundinn. Hann hafi litið á boðið sem sambærilegt við mörg önnur boð um morgunverðarfundi á vegum bankans. Sigmundur kveðst hafa mætt á fundinn en ekki getað setið hann allan. Inntak umræðnanna þann tíma sem hann var á fundinum hafi verið hvort Ísland ætti að skipta um gjaldmiðil eða ekki. Sigmundur kveðst enga skýrslu hafa fengið í hendurnar eftir fundinn og efni hans hafi ekki verið rætt nánar í ráðuneytinu.
Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans sat fulltrúi bankans fundinn og kynnti síðar niðurstöður hans fyrir öðrum innan bankans. Þótt skýrsla Bretanna dægi mynd upp í dökkum dráttum hefðu menn í banaknum áður sé efni af þessu tagi. Buiter og Sibert bentu m.a. á að á skömmum tíma hefði bankakerfi Íslands vaxið mjög mikið, miðað við stærð hagkerfisins.
Landið gæti haldið alþjóðlegu bankakerfi sínu en þyrfti þá að skipta um gjaldmiðil. Héldi það gjaldmiðlinum yrði að flytja alþjóðlegan hluta bankakerfisins úr landi.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var í hópi fundarmanna. „Það urðu miklar umræður á fundinum og spurningar,“ segir Vilhjálmur, sem telur ekki að upplýsingum hafi verið stungið undir stól. „Þeir [sérfræðingarnir] voru að horfa á sama vanda og við öll. Á þeim tíma var þetta mest spurning um það hvernig væri hægt að ná upp nægilega miklum gjaldeyrisvarasjóði til að geta dekkað þarfir,“ segir hann. Bresku sérfræðingarnir hafi haft sömu hugmyndir og aðrir um þetta.
Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, var líka á fundinum. Hann segir ekki margt hafa komið á óvart í skýrslunni. „Þetta voru hlutir sem margir voru að tala um hérna, þar á meðal ég,“ segir hann og nefnir atriði á borð við stærð íslensks bankakerfis.