Fækka ferðum til þriggja áfangastaða

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að auk þess sem fyrir liggi að beint flug á milli Íslands og Glasgow verði að mestu fellt niður frá því í desember á þessu ári og fram í mars á næsta ári, standi til að fækka ferðum á milli Íslands og Kaupmannahafna annars vegar og Íslands og Manchester hins vegar.

„Við greindum frá því fyrr á árinu að við myndum draga úr ferðum í vetraráætlun okkar um 15%. Vegna þeirra atburða sem síðan hafa átt sér stað liggur fyrir að ferðum verður fækkað heldur meira en til stóð. Eins og staðan er núna sýnist mér að samdrátturinn í allt verði 17 til 18%," segir Guðjón.

Hann segir það koma misilla við fólk þegar ferðum sé aflýst. Það skipti suma miklu máli en aðra ekki jafn miklu. Það fari eftir aðstæðum hverju sinni og reynt sé að aðstoða fólk við að komast á leiðarenda eftir öðrum leiðum.

Þá segir hann lög og reglur í gildi um slíkt og að farið sé eftir þeim. Icelandair reyni einnig að miða við að fella ekki niður ferðir með minna en mánaðarfyrirvara. Hann telji því fráleitt að stilla málinu þannig upp að með slíkum aðgerðum sé Icelandair á einhvern hátt að bregðast fólki. „Það er verið að gera nauðsynlegar ráðstafanir miðað við þær aðstæður sem nú eru  uppi í þjóðfélaginu og ég tel að við værum miklu frekar að bregðast ef við gerðum það ekki og færum með fyrirtækið í kaf," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert