Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnti tillögu á fundi með fulltrúum sveitarfélaga fyrr í dag sem heimilar sveitarstjórnum að leggja fram á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár sem gerir ráð fyrir hallarekstri. Samkvæmt lögum er það bannað en vegna sérstakra aðstæðna þykir það koma til greina að láta breyta lögunum.
Halldór mun ásamt fleiri fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga funda með Kristjáni Möller, samgönguráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála, þar sem efnahagserfiðleikar sveitarfélaga verða til umræðu.
Meðal þess sem einnig var rætt á fundinum var hvernig mögulegt væri að lina höggið sem sveitarfélög verða fyrir vegna innskila á byggingarlóðum. Samkvæmt lögum þurfa sveitarfélög að endurgreiða fé sem greitt hafði verið ásamt verðbótum. Þetta hefur komið illa við Kópavogsbæ og Hafnarfjarðarbæ sérstaklega, eins og greint hefur verið frá á mbl.is.
Heildarkostnaður sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vegna innskila á lóðum er talinn vera milli níu og tíu milljarðar króna.
Á fundinum lýstu fulltrúar sveitarfélaganna áhyggjum sínum vegna þeirra óvissu sem skapast hefur um tekjustofna sveitarfélaganna. Mikið tekjutap er fyrirsjáanlegt vegna efnahagsvandans.