Höfum ekki sagt NATO að Bretar séu óvelkomnir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði nú síðdegis, að Íslendingar hafi ekki tilkynnt NATO að Bretar séu óvelkomnir hingað til lands en til stendur að þeir taki við svonefndu loftrýmiseftirliti með orrustuflugvélum hér á landi í desember.  

Þegar Geir var spurður hvort hann teldi að Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, hefði talað ógætilega eftir ríkisstjórnarfund í dag en þá sagði Össur, að hann vildi ekki að Bretar komi  hingað til lands í desember að sinna loftfrýmiseftirliti en það myndi misbjóða íslensku þjóðarstolti. Sagði hann, að þeim skilaboðum hafi verið komið áleiðis til NATO.

Geir sagði að hann teldi þessi ummæli byggð á misskilningi á samtali hans og framkvæmdastjóra NATO í vikunni. Ekki væri skrítið, þótt menn fyllist gremju en íslensk stjórnvöld hafi ekki sagt NATO, að Bretar séu óvelkomnir hingað.

„En ég get ítrekað að við teljum framkomu Breta í okkar garð í sambandi við þessa fjármálakreppu algerlega óviðunandi og við munum einhverntímann svara fyrir okkur. En ég verð að fagna því að Bretar hafa í dag endurskoðað þau fyrirmæli um frystingu eigna þannig að öll viðskipti milli Bretlands og íslands eiga að geta farið fram með eðlilegum hætti," sagði Geir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert