Íslenskur skiptinemi sagður eftirlýstur

Rússneskir fjölmiðlar greina frá því í dag að íslenskur skiptinemi í Rússlandi hafi skotið til bana einn úr fjölskyldunni sem hann dvaldi hjá. Um hafi verið að ræða slysaskot en Íslendingurinn hafi flúið land og sé nú eftirlýstur. Ekkert mál af þessu tagi hefur komið á borð alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra skv. upplýsingum þaðan.

Fram kemur í rússneskum fjölmiðlum að Íslendingurinn, sem sé kona, hafi komið til borgarinnar Astrakhan sem skiptinemi til að læra rússnesku og dvalið í íbúð hjá rússneskri fjölskyldu.

Atvikum er lýst þannig, að konan hafi verið heima með fjölskyldunni og verið að skoða skotvopn. Konan hafi óvart þrýst á gikkinn með þeim afleiðingum að skot hljóp úr byssunni og hæfði eiganda vopnsins, tvítugan karlmann, í höfuðið.

Ungi maðurinn missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést fjórum dögum síðar af völdum áverkanna sem hann hlaut.

Íslenski skiptineminn er sagður hafa farið til Moskvu og þaðan úr landi. Lögreglurannsókn sé hafin og sé konan grunuð um manndráp af gáleysi, skv. því sem fram kemur í rússneskum fjölmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert