Mál hælisleitanda afgreitt á viku

Útlendingastofnun hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar í DV í dag um sjálfsvíg lettnesks manns í gistiheimilinu Fit í Njarðvíkum. Segir stofnunin, að hún hafi lokið meðferð máls mannsins á einni viku en hann hafi verið í hælismeðferð í Svíþjóð og Noregi síðastliðin ár.

Tilkynning útlendingastofnunar er eftirfarandi:

„Í DV í dag er greint frá sjálfsvígi lettnesks manns í gistiheimilinu Fit í Njarðvíkum. Útlendingastofnun telur óhjákvæmilegt að leiðrétta það sem missagt er í fréttinni og snýr að meðferð hælismálsins.
 
Í fréttinni segir að maðurinn hafi beðið í nokkra mánuði eftir niðurstöðu í hælismáli sínu hér á landi. Gætir þar nokkurrar ónákvæmni því útlendingastofnun lauk meðferð máls hans á einni viku. Um er að ræða karlmann frá Lettlandi, sem hafði verið í hælismeðferð í Svíþjóð og Noregi síðastliðin ár. Rétt er að undirstrika að lettneskum borgurum er eins og öðrum EES borgurum heimilt að dvelja á Norðurlöndum.
 
Hann kom til Íslands 3. september sl. og sótti um hæli hér á landi. Útlendingastofnun synjaði því erindi með ákvörðun viku síðar, enda ekkert fram komið sem gaf vísbendingu um að niðurstöður norskra og sænskra yfirvalda væru rangar. Um leið var útskýrt fyrir manninum að honum væri heimilt að dvelja hér á landi á grundvelli réttar síns til frjálsrar farar, t.d. á grundvelli atvinnuþátttöku eða atvinnuleitar. Vangaveltur blaðamanns um óvissu mannsins um framhald máls hans eða ótta hans við að vera sendur til Lettlands eru því tilhæfulausar miðað við þær aðstæður sem í raun voru uppi.
 
Rétt er að taka fram að ekkert í framkomu mannsins gaf tilefni til að ætla að hann væri í sjálfsvígshættu eða að hann ætti við geðrænan eða sálrænan vanda að stríða. Mjög óvenjulegt er að hælisleitendur komi hingað frá EES ríkjum."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert