„Það eru mikil vonbrigði að svona fór. Því er ekki að leyna. Ég held að það hafi enginn búist við því að niðurstaðan yrði svona skýr og afdráttarlaus,“ segir Kristín A. Árnadóttir, stjórnandi öryggisráðsframboðs Íslands fyrir hönd utanríkisráðuneytisins.
Kristín segir Ísland hafa fengið fyrirheit um stuðning frá mun fleiri ríkjum en reyndin varð að lokum. „Við vorum með fyrirheit um stuðning frá yfir 140 ríkjum og við héldum að 110 atkvæði væru pottþétt af þeim. En staðan reyndist önnur.“
Kristín segir líklegt að staða efnahagsmála á Íslandi, og mikill fréttaflutningur erlendis af vandamálum hér á landi, hafi skaðað framboðið. „Mér finnst líklegt að umfjöllun um gjaldþrot Íslandi, og aðrar neikvæðar fréttir um burði Íslands, hafi skipt sköpum að svona fór. Við erum búin að vera að reyna að halda sjó og vera jákvæð. Við höfum fundið stuðning líka en það er ómögulegt að segja í raun hvaða þættir það voru sem réðu því að svona fór.“
Kristín segir að röðin komi að Íslendingum á nýjan leik árið 2029. „Ef röðin helst sú sama hjá Norðurlandaþjóðunum þá kemur aftur að framboði árið 2029. Ég tel að Ísland hefði grætt mikið á því að komast inn í öryggisráðið en það er ekkert annað í stöðunni en að vinna áfram af metnaði að utanríkismálunum. Það er brýn þörf á því að það verði gert.“
Heildarkostnaður við framboðið var um 380 milljónir króna, að sögn Kristínar.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir, að þótt Ísland hafi ekki náð kjöri til öryggisráðsins að þessu sinni hafi framboðið stóreflt þátt Íslands í alþjóðasamstarfi. Kynningarstarfið hafi gert Íslandi kleift að koma á og efla tengslanet sem muni nýtast á komandi árum til að standa vörð um íslenska hagsmuni. Almennt sé viðurkennt að framboðið hafi styrkt norrænt samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.