Ný sjálfstæðisbarátta óhjákvæmileg

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á málþingi lagadeildar Háskóla Íslands í dag, að ný sjálfstæðisbarátta væri óhjákvæmileg til að endurheimta og treysta fjárhagslegan styrk þjóðarinnar. 

„Í þeirri baráttu mun örugglega reyna mjög á lög og lögfræðinga, eins og jafnan áður, þegar Íslendingar hafa leitast við að treysta stöðu sína í samfélagi þjóðanna," sagði Björn.

Hann bætti við, að hin mikla alhliða menntasókn þjóðarinnar hafi stuðlað að meiri og betri lífskjörum á skemmri tíma en nokkru sinni fyrr í sögu hennar.

„Við nýjar og gjörbreyttar aðstæður býr þjóðin enn að þessum auði, því að menntun verður aldrei frá neinum tekin. Hitt er síðan dapurleg staðreynd, að þrátt fyrir meiri og betri menntun hefur verið færst meira í fang, en íslenska bankakerfið þolir, þegar allur fjármálaheimurinn leikur á reiðiskjálfi. Nú skiptir öllu, að lög og reglur séu hafðar sem leiðarljós, þegar hafist er handa við að vinna sig út úr rústunum," sagði Björn.

Hann sagði að ætíð væru gerðar miklar kröfur til réttarvörslukerfisins en aldrei meiri en þegar vegið sé að innviðum þjóðfélaga, eins og hér hafi gerst.

„Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra, sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu. Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrynu af sér. Þrátt fyrir það má ætla, að núverandi stofnanir á sviði rannsóknar og saksóknar og jafnvel dómstólar eigi fullt í fangi með mál, sem kunna að spretta af falli bankanna. Fyrir hafa þessar stofnanir næg verkefni á sinni könnu, auk þess ráða þær tæplega hvorki yfir nægum mannafla né nægilegri sérþekkingu á þeim atriðum, sem hér koma til álita," sagði Björn Bjarnason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert