Orðrómur um fjölgun sjálfsvíga rangur

Á erfiðum tímum sem þessum komast oft á kreik sögusagnir sem eiga litla stoð í veruleikanum. Að gefnu tilefni vill Landlæknisembættið taka fram að sjálfsvígum hefur ekki fjölgað undanfarna daga og vikur. Tíðni þeirra nú er mjög hliðstæð því sem verið hefur undanfarin ár. Umræða um jafnalvarlega atburði og sjálfsvíg þarf ávallt að vera varkár og byggja á staðreyndum en ekki ágiskunum.

Ef fólki nægir ekki að ræða við sína nánustu beinir Landlæknisembættið þeim tilmælum til þeirra sem líður illa eða þekkja náinn vin eða ættingja í þeim sporum að hafa samband við heilsugæsluna, en auk þess stendur öllum til boða að leita til bráðaþjónustu á vegum geðsviðs Landsspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar ef svefnörðugleikar, kvíði og þunglyndi sækja á, að því er segir á vef Landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert