Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir fund með Yves Leterme, forsætisráðherra Belgíu í dag, að rætt sé um að endurreisa Kaupþing í Lúxemborg, sem er dótturfélag Kaupþings, banka, væntanlega í smækkaðri mynd, og sjá til þess að hann geti séð um sínar skuldbindingar.
Geir sagði að þeir Leterme hefðu rætt um leiðtogafund Evrópusambandsins, sem haldinn var í gær og fyrradag þar sem vikið var að Íslandi í lokayfirlýsingunni. Þá hefðu þeir rætt um Kaupþing í Lúxemborg, sem m.a. var með útibú í Belgíu.
Formaður skilanefndar Kaupþings kom á fund forsætisráðherranna og fór yfir stöðu mála. Sagði Geir, að fundinum hefði lokið með góðri von um að hægt sé að ná fullnægjandi niðurstöðu í málinu og tryggja að eignirnar sem eru fyrir hendi í þessum bönkum þannig að þær dugi fyrir skuldbindingum bankans en margir sparifjáreigendur eiga fé á reikningum Kaupþings í Lúxemborg og Belgíu.
Geir sagði, að vegna þessa væri mikilvægt að tryggja, að eignir bankans rýrni ekki. Hafi íslensk stjórnvöld beint því sérstaklega til allra skilanefndanna bankanna þriggja, að þær reyni að vernda eignir bankanna þannig að þær fari ekki á brunaútsölu.
Kaupþing í Lúxemborg rak einnig útibú í Genf þar sem um 1700 manns áttu innistæður á reikningum, samtals um 35 milljónir svissneskra franka, um 3,5 milljarðar króna. Kaupþing hóf að bjóða upp á hávaxtareikninga þar í júlí.
Í dag var tilkynnt, að fjármálaeftirlit borgarinnar hefði yfirtekið útibúið og muni byrja að greiða að minnsta kosti einhverjum reikningseigendum 5 þúsund franka upp í inneignir sínar en að hámarki 30 þúsund franka.
Það ráðist síðan af stöðu mála á Íslandi og þróunar í Lúxemborg hvort sparifjáreigendur, sem eiga meira en 30 þúsund franka inni á reikningum, fái það greitt en þeir eru ekki margir.