Rétt að fara í framboðið

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að niðurstaðan í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um sæti í öryggisráði SÞ hafi valdið vonbrigðum. Geir sagðist hins vegar telja, að staða Íslendinga sé sterkari nú en þegar kosningabaráttan hófst.

Geir sagði við blaðamenn eftir fund með Yves Leterme, forsætisráðherra Belga, í Reykjavík í dag, að framboð Íslands endurspegluðu þá grundvallarreglu, að litlar þjóðir jafnt sem stórar eigi jafnan rétt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ekki væri óeðlilegt að eftir 62 ára aðild að samtökunum bjóði Íslendingar sig fram til trúnaðarstarfa þar.

Geir sagði að Ísland hefði notið stuðning margra, þar á meðal Norðurlanda og margra þróunarlanda. Þá hefði framboðið eflt marga þætti í íslensku utanríkisþjónustunni og skerpt sýn á vandamál, sem Íslendingar geti tekið þátt í að leysa í heimshlutum, þar sem þeir hafi ekki beit sér. 

Einnig hafi framboðið, sem byrjað var að undirbúa fyrir um áratug, styrkt Íslendinga sem þjóð gagnvart fjölda annarra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka