Skiptineminn kom heim í gær

Utanríkisráðuneytið hefur staðfest að 17 ára gömul stúlka, sem var skiptinemi í Astrakhan í Rússlandi, hafi átt aðild að slysaskoti sem varð manni til bana síðdegis föstudaginn 10. október. Stúlkan kom til landsins í gær.

Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi staðfest við rússnesk yfirvöld í dag að stúlkan sé komin til landsins. Hann segist ekki vita til þess að stúlkan hafi verið eftirlýst.

Pétur segir að stúlkan hafi sett sig í samband við íslenska sendiráðið í Moskvu, en hann segir að foreldrar stúlkunnar hafi ákveðið að stúlkan skyldi koma heim. Hún hafi verið með sitt vegabréf og ekki verið í farbanni.

Rússneskir fjölmiðlar greina frá því í dag að skiptineminn hafi skotið til bana einn úr fjölskyldunni sem hann dvaldi hjá. Um hafi verið að ræða slysaskot en Íslendingurinn hafi flúið land og sé nú eftirlýstur.

Atvikum er lýst þannig, að konan hafi verið heima með fjölskyldunni og verið að skoða skotvopn. Konan hafi óvart þrýst á gikkinn með þeim afleiðingum að skot hljóp úr byssunni og hæfði eiganda vopnsins, tvítugan karlmann, í höfuðið.

Ungi maðurinn missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést fjórum dögum síðar af völdum áverkanna sem hann hlaut.

Skv. heimildum mbl.is framselja stjórnvöld aldrei íslenska ríkisborgara til annarra landa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka