Starfsemi margra útgerðarfyrirtækja er í óvissu sökum vandamála með greiðsluflæði á milli landa. Ein meginorsök greiðsluflæðivandans er að endurreistir viðskiptabankar eru ekki til í alþjóðlegum greiðslukerfum.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir á vef LÍÚ að ofan á fyrirsjáanlegt gríðarlegt tap vegna hruns íslensku viðskiptabankanna bætist við að greiðslur frá erlendum kaupendum fiskafurða berist seint eða ekki til landsins.
Daglegir fundir eru nú haldnir í Húsi atvinnulífsins þar sem saman koma fulltrúar aðildarfélaga samtakanna til að bera saman bækur sínar og þrýsta á stjórnvöld og Seðlabanka um úrbætur. Dæmi eru um að gjaldeyrismillifærslur taki allt að átta daga og önnur dæmi eru um að greiðslur hafi hreinlega „týnst.“