Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ), Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gert með sér samstarfssamning um eflingu atvinnusköpunar fyrir félagsmenn SSF. Samningurinn er gerður með stuðningi iðnaðarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.
„Þegar harðnar á dalnum fara hörkutólin á kreik. Nýsköpunarmiðstöð Íslands vill leggja sitt af mörkum og við teljum að samningurinn sé í senn táknrænn og mikilvægur til að nýta þann mikla mannauð sem nú losnar um í fjármálageiranum og blása til nýrrar sóknar í nýsköpun á Íslandi,“ segir Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, í tilkynningu.
Fram kemur í tilkynningunni, að sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar muni styðja meðlimi SSF í mótun viðskiptahugmynda og veita þeim endurgjaldslausa handleiðslu varðandi stofnun fyrirtækja, stoðumhverfi nýsköpunar innanlands og erlendis og þá styrki sem í boði eru.
Einnig mun Nýsköpunarmiðstöð setja á laggirnar verkefnið „Sérfræðingur til nýsköpunar“ þar sem meðlimir SSF geta komið sérfræðiþekkingu á framfæri við fyrirtæki og stofnanir.
Samningurinn er gerður með stuðningi iðnaðarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.