Fjárhagsstaða hafnarsjóðs Reykjaneshafna er erfið og staðan í efnahagslífinu er ekki til þess fallin gera hana auðveldari segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hafnarsjóður skuldar vel á þriðja milljarð og er sá skuldugasti á landinu.
Árni segir fjármagnskostnað hafa aukist jafnt og þétt sem hafi gert stöðuna sífellt meira íþyngjandi. „Reksturinn hefur staðið undir sér en fjármagnskostnaður hefur safnast upp á síðustu árum. Þá hefur verkefnastaðan breyst, meðal annars vegna þess að veiðiheimildir hér á svæðinu hafa verið að fara frá okkur undanfarin ár. Það skilar sér í minni tekjum,“ segir Árni.
Til Reykjaneshafna teljast höfnin í Njarðvík, Helguvík, Höfnum og Keflavík. Auk þess er smábátahöfnin í Grófinni hluti af Reykjaneshöfnum.
Árni segir yfirvöld í Reykjanesbæ horfa til þess að álversframkvæmdir í Helguvík, sem nú eru í undirbúningi, muni skipta sköpum fyrir Reykjanesbæ. „Fjárfestingar fyrir framkvæmdirnar í Helguvík verða að okkar mati til þess að fallnar að styrkja Reykjaneshafnir til lengri tíma. Ef af þeim verður þá munum við borga niður skuldirnar jafnt og þétt. Líklega á fimmtán til tuttugu árum.“
Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað hratt að undanförnu. Hæst fór það í 3.300 dollara júlí á þessu ári en hefur síðan verið í nánast frjálsu falli. Það er nú í kringum 2.100 dollara. Álverðið hefur því lækkað um 37 prósent á þremur mánuðum og hefur ekki verið lægra í þrjú ár. Álfyrirtæki víða um heim hafa brugðist við þessu með hagræðingaraðgerðum, að því er erlendir fjölmiðlar hafa greint frá að undanförnu.
Árni segist ekki hræddur um að þróun á álmörkuðum muni hafa áhrif á verkefnið í Helguvík. „Auðvitað er áliðnaðurinn ekki ónæmur fyrir breytingum á rekstrarumhverfinu. Auk þess er staðan á Íslandi núna ekki endilega aðlagandi fyrir erlenda fjárfesta. En verkefnið í Helguvík er á góðum rekspöl og við, bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, höfum alltaf verið staðráðin í því að láta þetta verkefni verða að veruleika. Það er nú þegar komið í þann farveg að nú verður ekki aftur snúið. En ég tel að það sé hægt að styðja betur við það að hálfu stjórnvalda og vonandi verður það gert. Ekki veitir af miðað við stöðuna hér á landi núna.“