Fylgjast náið með niðursveiflunni

Frá Alcoa Fjarðaál
Frá Alcoa Fjarðaál Árvakur/ÞÖK

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, segir alla sem starfa í áliðnaði fylgjast náið með niðursveiflu á álmörkuðum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað um 37 prósent á þremur mánuðum sem er hraðasta álverðslækkun í sögunni samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange.

Tómas Már segir öll álfyrirtæki finna fyrir niðursveiflunni. „Það eru ýmis hagræðingarúræði sem fyrirtæki geta gripið til. Það er mikilvægast að leggja mikið upp úr því að hafa framleiðsluna eins hagkvæma og kostur er við svona aðstæður. Við stöndum vel hjá Alcoa Fjarðaáli og erum með nútímalegan og góðan tækjabúnað, sem skiptir miklu máli í árferði eins og er nú.“

Heimsmarkaðsverð á áltonnið er nú um 2.100 dollarar en það var 3.300 dollarar þegar það fór hæst í júlí á þessu. Verðið hefur ekki verið lægra síðan á haustmánuðum árið 2005. Samhliða miklum verðhækkunum á olíu hækkaði verð á áli upp í 3.300 dollara en hefur lækkað hratt líkt og olían að undanförnu. Erlendir fjölmiðlar hafa á síðustu vikum sagt fréttir af hagræðingaraðgerðum álfyrirtækja vegna verðþróunarinnar. Álverum hefur verið lokað og hætt við ný verkefni.

Eins og greint var frá á mbl.is er ekki talið að þróun á heimsmörkuðum muni hafa áhrif á uppbyggingu álvera á Bakka við Húsavík, þar sem Alcoa hyggst byggja upp starfsemi, eða í Helguvík, þar sem Norðurál ætlar að byggja upp starfsemi.

Tómas Már segist ekki geta nefnt það hversu lágt verðið megi fara svo það hafi neikvæð áhrif á rekstur. Hann sagði það vera misjafnt eftirálverum hvernig sveiflur á verði hefðu áhrif á rekstur auk þess sem birgðastaða á efni sem notað væri við framleiðslu skipti miklu máli. Erfitt sé því að spá fyrir um hversu lágt verðið megi fara. „Við einbeitum okkur fyrst og fremst að því að reka Fjarðaál með ráðdeild og á skynsaman hátt og það gengur vel,“ sagði Tómas Már. 

Tómas Már Sigurðsson segir alla sem starfi í áliðnaði fylgjast …
Tómas Már Sigurðsson segir alla sem starfi í áliðnaði fylgjast náið með verðþróuninni á heimsmörkuðum. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert