Hluti af innistæðum í sjóðum endurgreiddur

Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir
Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir mbl.is/Golli

Útgreiðsluhlutfall úr verðbréfa- og fjárfestingasjóðum Glitnis, Landsbanka og Kaupþings verður á bilinu 65 til 84 prósent, samkvæmt gögnum sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Í gögnunum, sem voru tekin saman fyrir viðskiptaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið (FME) og skilanefndir yfirtekinna banka, var staða sjóða Landsbankans föstudaginn 3. október þannig að ekkert laust fé var í þeim. Viðskipti með sjóðina voru síðan stöðvuð mánudaginn 6. október og engin viðskipti hafa farið fram síðan. Sigurður Óli Hákonarson, framkvæmdastjóri Landsvaka sem rekur sjóði Landsbankans, bar þær tölur til baka í gærmorgun og sagði laust fé í sjóðum Landsbankans vera yfir 30 milljarða.

Sjóðirnir missterkir

Í gögnunum kemur fram að sjóðirnir voru missterkir. Þannig var reiknað með að Glitnir gæti greitt út um 84 prósent af innistæðum sjóðsfélaga. Góð lausafjárstaða Glitnis útskýrist að hluta til af því að bankinn keypti út skuldabréf Stoða úr sjóðum sínum. Þau voru metin á um 24 milljarða króna í hálfsársuppgjöri sjóða Glitnis. Skuldir Stoða við sjóðina voru keyptar upp áður en FME tók yfir bankann en eftir að íslenska ríkið ákvað að leggja Glitni til aukið hlutafé gegn 75 prósenta eignarhlut.

Gert var ráð fyrir því að Kaupþing gæti greitt um 80 prósent af innistæðum út en Landsbankinn einungis rúm 37 prósent. Þar var hins vegar gengið út frá því að laust fé í sjóðum Landsbankans væri ekkert. Þegar þeim rúmu 30 milljörðum króna sem reyndust vera í lausu fé í sjóðunum er bætt við hækkar hlutfallið töluvert og heimildir Morgunblaðsins herma að það gæti orðið á bilinu 65 til 70 prósent. Yfirvöld fullyrða að ríkissjóður hafi ekki sett fjármagn í sjóði Landsbankans.

Samkvæmt þeirri aðferðafræði sem notuð var við útreikningana var reiknað með að endurheimtingarhlutfall þeirra bankabréfa sem eru í sjóðum bankanna væri 30 prósent. Það þýðir að reiknað sé með því að þrjár af hverjum tíu krónum sem áætlað virði bréfanna var skili sér til útgreiðslu. Endurheimtingarhlutfall annarra bréfa í sjóðum bankanna þriggja var síðan áætlað á bilinu 37,2 prósent til 74,5 prósent.

Staðan betri en menn héldu

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir það mikið ánægjuefni að staða sjóða Landsbankans hafi reynst betri en upphaflega hafi verið haldið. „Vonandi er staða sjóðanna þannig að fólk fái sem mest út úr þeim, að tap þess verði sem minnst og miklu minna en það óttaðist á síðustu vikum, bæði gagnvart einstaklingum og fagfjárfestum. Höggið sem allir óttuðust og hefði orðið til þess að fólk fengi lítið sem ekkert út úr sjóðunum hefði orðið skelfilegt. En eins og þetta lítur út núna, án þess að ég hafi séð lokatölur frá sjóðunum, þá er staðan betri en menn óttuðust.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert