Heildarkostnaður sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna skila á byggingarlóðum sem hefur verið úthlutað nemur um tíu milljörðum króna. Munar þar mikið um að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu settu ákvæði í samninga við lóðarhafa um að mögulegt væri að skila lóðunum inn fyrir fullt verð og verðbætur að auki. Fyrir vikið standa stór hverfi auð eða nánast auð en búið er að leggja vegi, gangstéttir, reisa ljósastaura og fleira. Sveitarfélögin sitja uppi með þennan kostnað.
Þau sveitarfélög sem lenda í verstum vanda af þessum sökum eru Kópavogsbær og Hafnarfjörður. Heildarkostnaður Kópavogsbæjar vegna innskila á lóðum er á bilinu fjórir til fimm milljarðar króna en hjá Hafnfirðingum er hann 2,5 milljarðar. Þetta nemur um 175 þúsund krónum á hvern Kópavogsbúa og rúmlega 100 þúsund krónum á hvern Hafnfirðing.
Sveitarfélögin þurfa bæði að mæta þessum kostnaði með lánum og er unnið að því að útvega lán á góðum kjörum í gegnum lánasjóð íslenskra sveitarfélaga.
Frá árinu 2003 til 2007 fjölgaði íbúum í Kópavogi um 3.270. Í Hafnarfirði var fjölgunin enn meiri en tæplega 3.700 manns fluttu í bæinn á fyrrnefndu tímabili samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.Á þessu tímabili ákváðu sveitarstjórnir að skipuleggja nýja byggð fyrir þúsundir íbúa. Misjafnt var hvernig staðið var að úthlutun lóða. Ekki tókst að koma upp verklagi sem var óumdeilt. Hafa meðal annars gengið dómsmál um hvernig val á lóðahöfum fór fram. Verð á lóðum fór stighækkandi og var hæst greitt hátt í tuttugu milljónir króna fyrir einbýlishúsalóð í Kópavogi.
Sveitarfélögin sáu um að skipuleggja hverfi að fullu. Nú er svo komið að tilbúin hverfi standa tóm á stórum svæðum. Einkum eru Vatnsendahlíð í Kópavogi, Vallahverfi í Hafnarfirði og Úlfarsárdalur í Reykjavík dæmi um þetta.