Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru á fimmta hundrað manns samankomin á Austurvelli til þess að mótmæla Davíð Oddssyni, formanni stjórnar Seðlabanka Íslands. Fólk gengur um með skilti og krefst þess að Davíð verði látinn víkja sem seðlabankastjóri.
Í tilkynningu frá hópnum sem stendur að mótmælunum, sem kallar sig Nýir tímar - Vertu þátttakandi, kemur fram að Davíð bæri mesta ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi væri komin á Íslandi. Er þar vitnað til erfiðrar stöðu í efnahagsmálum vegna hruns viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Hópurinn er undir forystu Harðar Torfasonar, Kolfinnu Baldvinsdóttur, Dr. Gunna, Andra Sigurðssonar og Birgis Þórarinssonar.
Í tilkynningu frá hópnum er Davíð sagður bera ábyrgð á því að útrás íslensku bankanna misfórst. Íslensku bankarnir hafi stofnað til skuldbindinga með veikburða eftirlitskerfi og Davíð hafi ekki nægilega sérþekkingu á efnahagsmálum til þess að sinna starfi sínu nægilega vel.