Tap félagasamtaka og líknarfélaga vegna fjármuna sem þau áttu í peningamarkaðssjóðum gæti skipt tugum milljóna. Sum félagasamtök hafa ávaxtað fé sitt í sjóðum bankanna og önnur leitað eftir ávöxtun í hlutabréfum. Á næstu dögum kemur í ljós hversu mikið skilar sér til baka en mörg félagasamtök búa sig undir nokkurn skell.
Dæmi eru um að líknarfélög hafi fjárfest fyrir hundruð milljóna króna í sjóðum eða hlutabréfum. Mikil óvissa ríkir nú um þessa fjármuni og hversu mikið af þeim hafi tapast.
Þröstur Árni Gunnarsson, fjármálastjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir að félagið hafi fjárfest um 290 milljónir króna í sjóðum og hlutabréfum. Þá tapaði kvenfélagið Hringurinn yfir 10 milljónum króna við þrot banka sem hann átti hlutabréf í og KFUM og KFUK áttu um 150 milljónir króna í sjóði 9 í Glitni. Þeim tókst að losa um 43 milljónir úr safninu en eftir standa um 117 milljónir í sjóðnum.