Ekki er enn ljóst hversu mikið lífeyrir landsmanna skaðaðist vegna bankahrunsins. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, segir kröfur lífeyrissjóðanna vera um hundrað milljarðar króna.
Lífeyrissjóðirnir í landinu voru hluthafar í Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi sem skilanefndir á vegum fjármálaeftirlitsins hafa nú tekið yfir. Sérstaklega er mikið í húfi fyrir lífeyrissjóðina varðandi Kaupþing. Þar voru þrír lífeyrissjóðir meðal átta stærstu hluthafa, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.
Lífeyrissjóðirnir höfðu áhuga á því að eignast meirihluta í Kaupþingi en ríkið hefur hafnað því að ganga til samninga við forsvarsmenn þeirra.
Hrafn segir lífeyrissjóðina geta dregið úr skaðanum með því að skuldajafna tapið á hruni bankanna. „Þó kröfurnar séu yfir hundrað milljarðar þá eru lífeyrissjóðirnir með gjaldmiðlasamninga á móti sem nota má til þess að skuldajafna samkvæmt gjaldþrotalögum. Við erum að vinna að því núna að skoða hvernig landið liggur. Við funduðum með [Björgvini G. Sigurðssyni innsk. blm.] viðskiptaráðherra og [Árna M. Mathiessen] fjármálaráðherra og fórum yfir málið. Það verður að koma í ljós hvernig þetta endar en við erum vongóð um að skaðinn þurfi ekki að vera eins mikill og hann leit út fyrir í fyrstu.“