„Það er búið að þurrausa sjóðinn“

„Það er búið að þurrausa sjóðinn,“ segir Ómar Sigurðsson um peningamarkaðssjóði Landsbankans og gagnrýnir svör Stefáns Héðins Stefánssonar hjá Landsbankanum í viðtali við Morgunblaðið í gær.

Í liðinni viku lýsti Ómar því í viðtali við Morgunblaðið hvernig Landsbankinn hefði ginnt hann til að fjárfesta í peningabréfum bankans og fyrir vikið óttist hann um 60 milljóna króna sparnað.

Allt í kaldakoli

„Nú hefur komið í ljós að það er búið að þurrausa sjóðinn í peningamarkaðsbréfunum í eigu Landsvaka hf., sem er að fullu og öllu í eigu Landsbankans,“ segir Ómar. Hvernig stendur á því að Stefán vissi ekki af stöðu sjóðsins? Auðvitað vissi hann að þarna var allt í kaldakoli, en hann lét viðskiptavinina, sem hann segist bera svo mikla umhyggju fyrir, ekki vita af því. Nema örfáa mjög stóra fjárfesta, sem ráðlagt var fyrir skömmu að koma peningum sínum í skjól. Við hin, sem hafði verið boðið á tónleika og fótboltaleiki og þjónustufulltrúar bankanna höfðu hringt í og ráðlagt að kaupa bréfin, þetta venjulega fólk með venjulegan ævisparnað inni á þessum reikningum, vorum ekki vöruð við, heldur hvött til þess af bankanum að fara inn í sjóðina og sagt að þeir væru hundrað prósent örugg fjárfesting. Þær upplýsingar hafa meira að segja verið á heimasíðu Landsbankans.“Ómar segir að eftir viðtalið við sig í Morgunblaðinu hafi hann fengið mörg hundruð símtöl, tölvuskeyti og sms-skilaboð frá fólki, sem hafi sömu eða verri sögu að segja um viðskipti sín við Landsbankann. „Þar á meðal bankastarfsmenn. Þeir sögðu mér að þjónustufulltrúunum hefði verið greitt fyrir að hafa samband við skjólstæðinga sína og koma þeim í peningamarkaðssjóðinn. Ástæðan fyrir því að bankinn vildi fá þetta fé inn í sjóðinn er sú að þá hafði hann greiðari aðgang að peningunum, þurfti ekki jafnmiklar tryggingar og það tók skemmri tíma að fá lán. Enda sést þetta allt saman á því hvernig sjóðirnir standa núna. Landsbankinn er búinn að þurrausa hann. Eftir fjörutíu ára viðskipti við Landsbankann lýsi ég algjöru vantrausti á hann. Ekkert hefur verið að marka það sem bankastjórar og þjónustufulltrúar bankans hafa sagt, hvorki fyrir né eftir hrunið, og ekkert er að marka það sem stendur á vef bankans nema eitt; eyddu í sparnað. Það eru svo sannarlega orð að sönnu.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert