Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var vel fagnað við komuna á fundinn
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var vel fagnað við komuna á fundinn Árni Sæberg

Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, seg­ir að ljóst sé að staðan sé mun al­var­legri held­ur en talið var í upp­hafi og ljóst sé að vet­ur­inn verði erfiður og næsta ár eigi eft­ir að reyn­ast okk­ur mjög erfitt. Þetta kom fram í máli Ingi­bjarg­ar Sól­rún­ar á fundi flokks­fé­lag­anna í dag.

Ingi­björg Sól­rún þakkaði Öss­uri Skarp­héðins­syni, Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur og Björg­vini G. Sig­urðar­syni, fyr­ir hvernig þau hafi staðið sig í þessu ólgu­veðri sem nú hef­ur geisað í henn­ar fjar­veru.

„Sér­stak­lega vil ég vekja sér­staka at­hygli á Björg­vini G. Sig­urðssyni, viðskiptaráðherra, er til efs að nokk­ur ung­ur ráðherra hafi nokk­urn tíma þurft að fara í gegn­um sömu eld­skírn og hann hef­ur þurft að gera að und­an­förnu."

„Þá skipt­ir auðvitað máli hverj­ir eru að tak­ast á við verk­efn­in í rík­is­stjórn Íslands. Ég tel það al­gjört grund­vall­ar­atriði að jafnaðar­menn siti í rík­is­stjórn á Íslandi í þeirri orra­hríð sem við erum að fara í gegn­um núna og móti þær stefn­ur og strauma sem munu hafa áhrif á þetta sam­fé­lag og það sem mun þró­ast á næstu árum."

Seg­ir hún mik­il­vægt að svo sé á meðan tek­ist er á við þau verk­efni sem eru aðkallandi og við tök­um á því sem aflaga fór í sam­fé­lag­inu á und­an­förn­um árum. Það er auðvitað margt sem fór aflaga á síðustu tíu árum og það má ekki end­ur­taka sig á kom­andi árum, seg­ir Ingi­björg Sól­rún. Því verði jafnaðar­menn að af­stýra. 

Ingi­björg Sól­rún var hrærð þegar hún tók til máls á fund­in­um og sagðist ekki hafa átt von á að beygja af er hún kæmi á fund­inn en þegar hún fann all­an þenn­an stuðning sem var með henni þegar hún kom í sal­inn. „Það er svo sterk til­finn­ing að koma inn í þenn­an góða hóp að ég bara réð ekki við hana og ég tel mig ekki mann­eskju minni."

„Þetta hef­ur verið sér­kenni­leg staða að hafa nán­ast verið snert af eld­ingu fyr­ir um mánuði síðan og eitt­hvað sem gerði ekki boð á und­an sér. Síst átti ég von á þessu og reynd­ar merki­legt að maður­inn minn, Hjör­leif­ur, var í Kína og við reynd­um mikið að ná í hann og hann skynjaði að það væri eitt­hvað ekki í lagi. En síst af öllu datt hon­um í hug að eitt­hvað væri að mér. Því hingað til hef ég verið við góða heilsu og litið á mig við þá bestu heilsu sem hugs­ast get­ur.

Þetta ger­ir ekki boð á und­an sér en ég var hepp­in að vera stödd í New York þegar ég veikt­ist þar sem ég fékk þá bestu meðhöndl­un sem hugs­ast get­ur."

Seg­ist hún von­ast til þess að geta lagst á ár­arn­ar nú þegar hún væri kom­in heim, kannski ekki af full­um þunga til að byrja með en fljót­lega í það minnsta eft­ir næstu viku. Seg­ist hún eiga eina smáaðgerð eft­ir  í næstu viku. Seg­ir hún það litla aðgerð og ekk­ert í lík­ingu við það sem hún hafi áður geng­ist und­ir og von­andi komi hún til starfa fljót­lega eft­ir það við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í sam­fé­lag­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka