Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var vel fagnað við komuna á fundinn
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var vel fagnað við komuna á fundinn Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ljóst sé að staðan sé mun alvarlegri heldur en talið var í upphafi og ljóst sé að veturinn verði erfiður og næsta ár eigi eftir að reynast okkur mjög erfitt. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar á fundi flokksfélaganna í dag.

Ingibjörg Sólrún þakkaði Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Björgvini G. Sigurðarsyni, fyrir hvernig þau hafi staðið sig í þessu ólguveðri sem nú hefur geisað í hennar fjarveru.

„Sérstaklega vil ég vekja sérstaka athygli á Björgvini G. Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, er til efs að nokkur ungur ráðherra hafi nokkurn tíma þurft að fara í gegnum sömu eldskírn og hann hefur þurft að gera að undanförnu."

„Þá skiptir auðvitað máli hverjir eru að takast á við verkefnin í ríkisstjórn Íslands. Ég tel það algjört grundvallaratriði að jafnaðarmenn siti í ríkisstjórn á Íslandi í þeirri orrahríð sem við erum að fara í gegnum núna og móti þær stefnur og strauma sem munu hafa áhrif á þetta samfélag og það sem mun þróast á næstu árum."

Segir hún mikilvægt að svo sé á meðan tekist er á við þau verkefni sem eru aðkallandi og við tökum á því sem aflaga fór í samfélaginu á undanförnum árum. Það er auðvitað margt sem fór aflaga á síðustu tíu árum og það má ekki endurtaka sig á komandi árum, segir Ingibjörg Sólrún. Því verði jafnaðarmenn að afstýra. 

Ingibjörg Sólrún var hrærð þegar hún tók til máls á fundinum og sagðist ekki hafa átt von á að beygja af er hún kæmi á fundinn en þegar hún fann allan þennan stuðning sem var með henni þegar hún kom í salinn. „Það er svo sterk tilfinning að koma inn í þennan góða hóp að ég bara réð ekki við hana og ég tel mig ekki manneskju minni."

„Þetta hefur verið sérkennileg staða að hafa nánast verið snert af eldingu fyrir um mánuði síðan og eitthvað sem gerði ekki boð á undan sér. Síst átti ég von á þessu og reyndar merkilegt að maðurinn minn, Hjörleifur, var í Kína og við reyndum mikið að ná í hann og hann skynjaði að það væri eitthvað ekki í lagi. En síst af öllu datt honum í hug að eitthvað væri að mér. Því hingað til hef ég verið við góða heilsu og litið á mig við þá bestu heilsu sem hugsast getur.

Þetta gerir ekki boð á undan sér en ég var heppin að vera stödd í New York þegar ég veiktist þar sem ég fékk þá bestu meðhöndlun sem hugsast getur."

Segist hún vonast til þess að geta lagst á árarnar nú þegar hún væri komin heim, kannski ekki af fullum þunga til að byrja með en fljótlega í það minnsta eftir næstu viku. Segist hún eiga eina smáaðgerð eftir  í næstu viku. Segir hún það litla aðgerð og ekkert í líkingu við það sem hún hafi áður gengist undir og vonandi komi hún til starfa fljótlega eftir það við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert