Þeir eru orðnir hluti af jólahefðinni, líkt og jólaskreytingarnar á Buchanan stræti í Glasgow. Frá lokum október og allt til jóla hafa hundruð Íslendinga í innkaupaleiðangri hertekið verslanir Skotlands og keypt gjafir á mun lægra verði heldur en heima. En í ár hefur innrásinni verið aflýst, að því er fram kemur í breska dagblaðinu Sunday Times.
Segir í greininni að fall íslenska bankakerfisins hafi skilið íslensku krónuna eftir nánast verðlausa á sama tíma og mikil verðbólga éti upp þá litlu peninga sem Íslendingar eiga í handraðanum.
„Það er engin spurning um að mun færri ferðamenn frá Íslandi munu koma í ár til Skotlands," segir konsúll Íslands í Skotlandi, Cameron Buchanan.
Glasgow og Edinborg hafa verið vinsælir áfangastaðir fyrir Íslendinga en efnahagsástandið nú veldur því að allt er 20% dýrara í Skotlandi í dag en fyrir nokkrum vikum síðan.