Nýr kafli á Reykjanesbraut var tekinn í notkun í dag og er brautin nú orðin tvöföld að undanskildum stuttum kafla gegnum Hafnarfjörð. Kristján L. Möller samgönguráðherra klippti á borða og opnaði brautina formlega að viðstöddum vegamálastjóra og ýmsum gestum.
Fyrri áfangi tvöföldunarinnar, milli Hvassahrauns og Strandarheiðar, var tekinn í notkun haustið 2004 og seinni áfanginn, milli Strandarheiðar og Njarðvíkur, var boðinn út haustið 2005 og er honum nú að ljúka.
Á vef samgönguráðuneytisins er haft eftir Kristjáni, að mörg verk og viðamikil séu framundan á sviði samgöngumála. Mörg verkefni séu þegar komin af stað og áætlanir miði að því að hrinda í framkvæmd ýmsum stórverkefnum.
„Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa um hvernig þessar áætlanir standast. Verður það verkefni samgönguyfirvalda á næstu vikum að fara yfir allt sviðið og meta hversu raunhæfar þessar áætlanir eru í ljósi aðstæðna,” sagði Kristján.