Bakarameistarinn ætlar að taka þátt í glímunni við verðbólgudrauginn með því að lækka verð í nokkrum vöruflokkum. Jafnframt mun fyrirtækið draga úr innflutningi, eins og því er frekast unnt, til að hrófla sem minnst við gjaldeyrisforða Íslendinga.
Fram kemur í tilkynningu frá Bakarameistaranum að í öllum verslunum Bakarameistarans sé byrjað að selja Íslandsbrauð, sem er stórt milligróft brauð, sem kostar aðeins 199 krónur.
Þá segir að hinir séríslensku snúðar hafi einnig verið lækkaðir í verði og kosta nú aðeins 99 krónur. Þá hafi verðið á súpu og brauði með smjöri verið lækkað í 399 krónur. Bakarameistarinn mun á næstu vikum bjóða viðskiptavinum síðum upp á ýmiss hagstæð tilboð til þess að létta íslenskum heimilum róðurinn.
„Með þessu vonast forráðamenn Bakarameistarans til þess að sýna gott fordæmi sem megi verða öðrum fyrirtækjum hvatning til þess að skera niður eins og frekast er kostur innflutning á tilbúnum vörum.
Rétt er að ítreka að Bakarameistarinn mun ekki draga úr gæðum framleiðslu fyrirtækisins og í engu til spara að bjóða viðskiptavinum sínum upp á brauð og bakkelsi úr besta fáanlega hráefni,“ segir í tilkynningu.